Kjósarbæir

Hér vantar texta til að birta. Þessi síða er í vinnslu.

Þorsteinn Veturliðason

Litlibær – Austur af Þúfujörðinni liggur Litlibær, landminnsta jörð Kjósarinnar þegar hún var tekin úr ábúð vorið 1943 – Ræktuð tún gáfu þá af sér 80 hestburði töðu meðan Hjarðarholt sem var litlu stærri gaf af sér 200 hesta. – Þegar Bjarni keypti Litlabæ um 1948 af Guðríði Steinadóttur, ekkju Jóns Eyjólfssonar, þá var bústofninn 2 kýr, 20 ær og 2 hestar. Öll hús voru hlaðin úr torfi og grjóti með vatnslögn þar sem dæla þurfti úr gröfnum brunni sem var suðuraf íveruhúsinu. Útikamar var og einu hlunnindi jarðarinnar var drjúg mótekja. – Oftast þurfti samt að sækja vatn í brunninn því vatnslagnir voru hvorki burðugar né mikið niðurgrafnar. – Litlibær er dásamlegur staður, víðsýnt og fagurt í allar áttir. Nálægðin við hlóðlátt rennslið í Dælisá og merlun tunglsskinsins í Meðalfellsvatni hefur örugglega veitt ábúendum þar fullnægju fegurðar og eflt rómantíkina hjá því fátæka fólki sem þar bjó að jafnaði. – Síðustu ábúendum fæddust 2 dætur, önnur dó 14 ára gömul en Margrét fædd 1897 varð ráðskona og barnsmóðir Jóns Borgþórs Guðmundssonar sem bjó á Neðri Möðruvöllum. – Dætur þeirra voru: Ólöf fædd árið 1924 en hún lézt 1967 eftir erfið veikindi – Anna Kristín fæddist í september 1927 en dó fyrir árslok sama ár – Loks var Svanlaug fædd 1929 en hún dó 1994 – Svanlaug, eða Svana eins og mamma kallaði hana, var mikil saumakona og mig minnir að þær hafi lært hjá sama aðila í Reykjavík. Svana bjó á Langholtsveginum en þegar mamma kaus að heimsækja hana þá vildi ég heldur leika mér í Skipasundinu. – Ef ég man rétt þá borguðu afi og amma fyrir útfarir þeirra Jón og Kristínar og hvíla þau undir ómerktum leiðum ásamt ungri dóttur fjallsmegin við leiði ömmu og afa í Reynivallakirkjugarði.

Lindarbrekka – Í suð-suðvestur af Þúfu er landreitur ca 1,4 ha að stærð, mestmegnis tún með beitarrétti í Spóamýri neðan Klukku, Litlulágar og Berjalautar. – Landreitnum hélt Halldór Sveinsson eftir þegar hann lauk 16 ára búskap í Þúfukoti vorið 1885. – Halldór kallaði þennan jarðarpart Litlu-Þúfu og bjó þar með vinnumennsku á Þúfu frá 1885-97 en þá var hann þrotinn kröftum enda dó hann tæplega tveimur árum seinna á 72 aldursári í marz 1899. Eitt af 7 börnum hans, Sveinn, var mikill baslmaður í peningamálum en til að forða honum og fjölskyldu hans frá sveit hjálpaði Kjósarhreppur honum á vordögum 1914 að byggja íveruhúsnæði á tóftum gamla bæjarins. – Sveinn kaus að kalla býlið Lindarbrekku enda var vatnstaka Þúfubæjarins í brunni nær efst í vesturhorni jarðarpartsins. Þar var hlaðinn brunnur og yfirreft með baulu og vatnshalla. – Sveinn flutti ekkill úr Bakkakoti við Akranes (áður Steðja í Flókadal og Stóru-Býlu) en sambýliskonan hans, Kristín Jónsdóttir, hafði dáið úr berklum árið 1910 úr berklum þá aðeins 19 ára gömul. Með honum fluttu Þorsteinn fæddur 4. febrúar 1907 og skólasystir Bjarna, Gyða Sveinsdóttir, fædd 3. ágúst 1908. Fleiri börn Sveins voru vistuð í Kjósinni en ekki finnst mér tilefni til að nefna þau. Gyða ólst upp á Möðruvöllum eins og Haraldur okkar (1910) og vinátta Þúfusystkinanna og barna Sveins var einlæg og hlý þar sem aldrei brá skugga á. – Þorsteinn var harðduglegur til allra verka, þrekmikill og áræðinn og vann lengi vel sem húsmaður á Meðalfelli. – Við mamma komum stundum til Gyðu á Laugaveg 165 en barnið ég vissi lítiðþað á hverju vináttan byggðist og hve náin vináttan var í raun. Gyða upplifði erfiða tíma úr fátækt, 2 húsbruna og erfið atvinnuár en hún kom upp 6 börnum með þremur feðrum. – Hugur Bjarna var sterkur til þessa býlis og 1930 greiðir hann fjármuni til Sveins fyrir húsnæði sem var baðstofa, ofaná fjárkró og hlöðumynd sem var minni en ekki neitt. Kyndurnar 3 lambfullar verzlaði Bjarni og fluttist Sveinn til Hafnarfjarðar en þar dó hann 74 ára árið 1938. – Þessi orð er bezt að láta nægja um blessaða Lindarbrekkuna.

Þorsteinn Veturliðason Einu gleymdi ég sem verður að fylgja. Afi leigði Þúfuna frá vordögum 1908 og kaupir hana af Kjósarhrepp vorið 1945 með hlutdeild, Bjarna, Ástu og Munda. – Bjarni greiddi alfarið þá fyrir Litlabæ og Lindarbrekku úr eigin vasa og sameinaði jarðarpartana. —-Frásögn um Litlabæ kemur vonandi seinna.