Mótorhjólið hans Munda

Skúrinn í Skipasundi 42 geymdi ýmis verðmæti. Þar var meðal annars mótorhjól. Ég fékk ströng fyrirmæli um að snerta ekki þetta tæki, því þetta var motorhjólið hans Munda. En ég fór nú ekki eftir öllu sem mér var sagt að gera og var stundum eitthvað að fikta í tækinu.

 

Ég held að ég hafi séð mynd af Munda á mótorhjólinu, en það var hans fararskjóti. En það er svo merkilegt að sumir draumar mínir fara fram í skúrnum og þá er motorhjólið þar ásamt stórum potti sem var notur til að sjóða slátur. Ég og pabbi hirtum allar spýtur sem við sáum, þær voru notaðar til að kynda ofninn ástamt kolum.

 

Einn góðan veðurdag kom Steini og tók mótorhjólið. Ég veit ekki hver urðu örlög þess eftir það. En það væri forvitnilegt að fá upplýsingar um hvort það hafi verið nothæft eftir það trítment sem það fékk hjá mér.

 

Þorsteinn Veturliðason

Þær voru tvær, NSU-skellinöðrurnar hans Munda – Sú fyrri var með númerið G-47 og sú seinni G-55 – Þórir í Eyrarkoti fékk fyrra hjólið og notaði það talsvert þangað til hann keypti sér bíl. – Seinna hjólið náði ég í til ykkar seinni hluta árs 1971 og gerði það vel gangfært meðan ég bjó í Skólagerði 1 í Kópavogi. – Kópavogur var þýfðari en nokkur kargamýri á norðurhveli Jarðar þrátt fyrir að einhverjum gárunga dytti það í hug að kalla þetta götur….ja, hérna. – Sakir ófærðar innanbæjar (holóttir vegaslóðar og torfærar brýr) þá seldi ég hjólið vorið 1972 á krónur 10.000 og sá það á ferðinni einhver ár í viðbót. – Mundi gat ekkert hjólað á því eftir að hann valt útaf í litlu beygjunni sem er ennþá rétt þegar ekið er af hlaðinu á Þúfu. – Ég notaði þetta hjól mikið, fór í kaupstaðarferð til Reykjavíkur, ók með Guðna á Sandi yfir Svínaskarðið og tvisvar suður í Mosfellssveit. – Saman ferðuðumst við mikið og í söluferð minni með bekkjarblaðið úr Brúarlandsskóla kom ég heim á hvern bæ í Kjósinni og á Kjalarnesi sem tilheyrði Saurbæjarkirkju og seldi grimmt – Fékk góðgjörðir á flestum bæjum og á einum stað kaffi og ,,útíþað” – unglingadrykkjan þekktist ekki þá.

 

 

Önnur saga úr skúrnum.

Í kommóðu heima voru tveir kassar og í þeim voru hagbyssuskot. Gamli maðurinn fór nokkru sinnum á rjúpu, en ég man ekki eftir að hann hafi nokkru sinni komið heim með rjúpu freka en ég með lax úr þeim veiðiferðum sem ég fer í.

 

Mér þótt gaman að útbúa sprengjur og grunaði að í þessum skotum væri betra púður en í flugeldum sem venjulega var notað í sprengjur. Ég tók tvö skot og sagaði þau í sundur með járnsög og náði í slatta af púðri og útbjó ágæta sprengju.

 

Nokkru síðar kallar pabbi á mig og var afskaplega föðurlegur og rólegur. Bað mig að koma út í skúr og sýndir mér hluta af haglabyssuskoti sem hafði verið sagað sundur og spurði hvor ég hefði verið að verki. Það hvarflaði að mér að kannast ekkert við þetta, eins og oft þegar óknyttir voru bornir upp á mig. En gamli karlinn var rólegur og yfirvegaður svo ég játaði að hafa verið þarna að verki.

 

Ég var alveg hissa á þessu jafnaðargeði í pabba en þegar ég var búinn að játa sagði hann við mig. Jón ég ætla að biðja þig um að gera þetta aldrei aftur, þú gætir steindrepið þig á þessu og er í raun heppinn að hafa ekki drepið við að saga sumdur þetta skot. Ég var einnig búninn að berja aðeins á hvellettunni. Síðan var aldrei minnst á þetta aftur.

 

Kínverjar.

Einu sinni eignaðist ég pakka af kínverjum. Til að sprengja þá var þeim strokið eftir eldspýtustokk og eftir ca 5 til 10 sek sprungu þeir með miklum hvelli. Ég prengdi þá alla nema einn sem ég náði ekki að tendra, en geymdi hann í kartöflugeymslunni undir tröppunum.

Einu sinni var ég sendur til að ná í kartöflur og þá sá ég kínverjann. Ég gerði eina tilraun til að kveikja í honum og viti menn það tókst. En ég var inni í karöflugeymslu sem er ca 4 fermetrar. Ég gat ekkert gert nema að kasta honum frá mér. Það kom auðvitað afskaplega mikill hvellur og eg fékk hellu fyrir eyrun og heyrð illa næstu daga. En fjölskyldan vildi fá skýringar á þessu og ég gat ekki verið að segja sannleikann á heimskulegri hegðun minni. Ég sagði að það hefðu komið þarna strákar sem hentu kínverjanum að mér. Fjölskyldan reyndi mikið að fá það út úr mér hvað strákaóféti hefðu gert mér þetta, en því miður sá ég ekki hvaða strákar þetta voru. Síðar voru vinir mínir spurðir hvort þeir hefðu verið að verki en enginn kannaðist við þetta. En lengi vel lá Diddi vinur minn undir grun. En hann þrætti staðfastlega og þrátt fyrir það héldum við áfram að vera ágætir vinir.

 

Kveðja

Jón Þorbjörnsson