Fróðleikur

Fróðleikur frá Þorsteini Veturliðasyni.

Þorbjörn gerist bóndi í Þykkvabæ.

Gulnuð blöð. – Þorbjörn kaupir 1/2 jörðina Vesturholt í Djúpárhreppi (Þykkvabæ) með afsali af ekkju og einum syni Gísla Gíslasonar. Hinn helminginn áttu önnur börn Gísla – Þessi afsalsgerð er dagsett 29. maí 1939 en vel að merkja þá voru þau gefin saman 16. september sama ár. – Eitthvað reyndist málum blandið með skiptingu jarðarinnar og var hlutur Siggu og Bjössa álitinn af kunnugum mun rýrari til ræktunar en hinn hlutinn – Þau náðu vorsáningu á kartöflum þá um vorið og nutu einnig haustuppskeru eftir að þau seldu 26. maí 1941 – Bjössi er talinn bóndi þarna í Vesturholtum 1939-42 en þá fluttu þau alfarið suður með lögheimili á Þórsgötu 14. – Í jafnaðarárferði gaf jarðarparturinn af sér 23 (200l) tunnur af garðávöxtum, 75 hesta af heyi sem dugði fyrir 12 kýr, 26 ær og 14 hross. – Ekki er fullvíst að þessi bústofn hafi alfarið tilheyrt Bjössa og Siggu – Íbúðarhúsnæðið var tvískipt – járnklætt timburhús og útihús úr torfi og grjóti með timburröftum. Sjálfrennandi vatn var í húsinu, skolp lagt frá því en samt ekki getið um vatnssalerni. – Jörðin taldist meðalstærð (aðeins 9 jarðir stærri) af þeim 44 bæjum sem þá voru í byggð í Djúpárhreppi. – Einu hlunnindi jarðarinnar var hlutdeild í reka og silungsveiði í lækjum. – Þau seldu Guðna Gestssyni og Vigdísi Jónsdóttur jarðarpartinn og býr sama ætt þar ennþá svo bezt ég veit enda ættingjar og afkomendur á flestum þeim bæjum sem enn eru í Þykkvabæ. – –Þorbjörn lauk fokheldisgerð í Skipasundinu fyrir 1. júní 1947 og svo man ég ekki meira í bili – en til er mynd af vörubílnum þeirra sem þau áttu þennan tíma enda naut Þúfuheimilið dugnaðar og hagleiks Bjössa þegar kom að húsbyggingu – fyrst 1934 og síðan viðbygging 1943 -45.

 

Smalamennska frá Þúfukoti og Þúfu. – Að morgunmjöltum loknum var snæddur árbítur og síðan ákveðin skipting mannskaps ofan og neðan fjalls. – Þeir sem elta áttu brekkurnar og standa fyrirstöðu gátu slakað á næstu 2 klukkutímana en jafnan var farið á fjallið uppúr kl. 9 árdegis. – Frá Þúfu gengum við gjarnan tveir frá Þúfu og fengum síðan einn með okkur á Eyrarfjallið frá Þúfukoti. – Farið var upp vestan við Þúfukots-bæjarlækinn skáhallt undir klettabelti í att að Galtargili en farið áður upp fjárgötur sem lágu upp á Kasa (sumir kölluðu það Kastið) sem er klettaskorningar austur af miðju Galtargili. Þaðan skildu fljótlega leiðir þannig að einn okkar gekk fram og fyrir ofan Rjúpnadalinn í austur og hélt eftir niðurrekstur fjárins til móts við hina út undir Gvendarkistu. Hinir tveir héldu áfra…m og þveruðu Galtargilið þegar það grynntist til muna og héldu vestur, annar fram undir Fannadal en hinn tók svæðið í kringum vötnin þrjú og sameiginlega var féð rekið í átt að Skorárbotnum. Sá sem lenti utar var með mesta yfirferðina þannig að hann þurfti að gæta að fyrirstöðu þannig að okkar fé færi ekki yfir í Bæjar-landið og gekk það alla jafnan vel enda féð nokkuð heimrækið. Sjaldan var augnsamband á milli smala þannig að áætla þurfti vandlega og þekkja til smölunarhraða hvers annars. Þegar kom niðurundir Gvendarkistu var eftirleikurinn oft strembinn að ná öllu fénu niður samtímis og fylgdu því gjarnan ærin hlaup fram og til baka. – Samt var ávallt bezt að ná fé af fjalli þegar eitthvað var að veðri. – Frá Gvendarkistu var féð rekið niður á Spóamýri og oftast dreifði það sér niður á Litlabæjarmelana áður en tókst að safna. – Þá valt oft mikið á fyrirstöðufólkinu að sjá til þess að féð færi ekki til baka vestur með kletunum fyrirofan Þúfu og einnig að gæta vegarins í átt að Bæ. – Safnið var rekið þá fyrst ég man í gerði sem girt var af austan meginn gömlu grjótréttarinnar á Þúfu. – Seinna var féð safnrekið inná Litlabæjartúnin og enn seinna á Þríhyrnuna sem var norðan brúsapallsins. – Ef smalað var á Eyri samtímis var fjallferðin mun léttari enda tók Eyrin þá austur af Fannadal og létti á Þúfunni. – Gott er að minnast góðra smala. (viðbót: Gvendarkista er eldra nafn á klettakistunni en Miðaftankista sem Jón afi notaði þó gjarnan. Fjarstefna til sólar um klukkan 16:00 bendir til þess að miðaftansviðmiðið hafi komið frá Litlabæ)

 

Símamál og Eyrarkot – Áður hef ég skrifað að landsímastöðin hafi fluzt að Eyrarkoti beint frá Útskálahamri. – Tæknilega séð er það ekki alveg nákvæmlega rétt því frá Útskálahamri lágu línur í deilistöðvar á Eyri, Neðra-Hálsi, Meðalfelli og Reynivöllum. Veiga var komin 3 mánuði á leið þegar þau Hermann taka við Eyrarkotinu á fardögum vorið 1946 en þá hafði hann búið í Reykjavík um 3ja ára skeið. – Þegar Kjósaringar fréttu að ég myndi fæðast árið 1949 þá þótti öruggara að leggja síma heim á alla bæi í Kjósarhreppi sem eftir voru (þannig að boða mætti komu frelsarans,; seinni tíma söguskýring). – Þá var ákveðið að deilistöðin skyldi alfarið flytjast að Eyrarkoti. – Hermann hafði alla tíð síðan aðalatvinnu af akstri vörubifreiða hjá Vegavinnu ríkisins sem síðar meir var nefnd Vegagerð ríkisins. – Þegar Hermann féll frá í byrjun þorra árið 1957 sýndi það og sannaðist þvílík dugnaðarkona Veiga var. Hún bjó með kýr og fénað á erfiðri jörð auk þess sem hún stjórnaði landsímastöðinni. Mér er það mjög minnisstætt að eitt sinn sem oftar þegar við mamma vorum á bæjarflakki og komum að sjálfsögðu að Eyri og Eyrarkoti þá sat Veiga á Farmal-traktornum og var að ljúka við slátt – hún var nefnilega í kjól, stígvélum og úlpu. Þúfusysturnar voru nefnilega þannig að þær klæddust kvenfatnaði til allra búverka en þó var að ég held Ásta, mamma, einna fyrst að fara í utanyfirbuxur þegar gengið var til mjalta og heyja. – Ég verð í innskoti að nefna það að ég held að Veiga afi ekki farið í utanyfirbuxur fyrr en eftir ferðalagið sem þær systurnar fóru saman í út í Flatey á Breiðafirði en þá þurfti að hjálpa þeim niður landanginn í ferðabátinn. – Þær áttu saman yndislegar stundir þegar báðar voru komnar til Reykjavíkur, gönguferðir, tjaldferðalög og þátttaka í hópferðum víða um landið. – Eina smásögu af fjölmörgum verð ég að láta fylgja um Þóri. – Þórir keypti sér bíl að mig minnir aðeins áður eða til þess að allt sé löglegt þegar hann hafði aldur til. Ég var alltaf með það í minningunni að það hafi verið NSU-Prins en líklega var það Simca; bezt að hann svari því enda gjörminnugur. – Þórir ók með skeyti um sveitina þegar tilefni gafst til, fyrst á reiðhjóli, síðan skellinöðru og síðast á bílnum. – Bíllinn hans var mjög lágur á vegi, líklega aðeins 12 cm. undir lægsta punkt. – Þegar hann kom eitt sinn á bílnum höfðu verið miklar vorleysingar, vegurinn frá brúsapalli afar blautur og moldarvilpur hér og þar. Þessa heimtröð fór Þórir á klukkutíma eftir mikið hjakk og fjölmörg skáskot eftir miðjuhrygg vegarins. – Frá brúsapalli og heim að Þúfu er ca 5 mínútna gangur yfir tún. – Við fylgdumst með honum og Bjarni var í startholunum að draga bílinn upp ef til þess kæmi. – Heim á hlað komst Þórir og þar þakkaði Bjarni honum mikið vel fyrir að slétta heimtröðina – og brosti blítt út í annað munnvikið.